Hver er Baddi?

Hæ þú og einlægar þakkir fyrir að kíkja hér inn og sýna mér og mínu áhuga.

Ég er faðir, eiginmaður, elskhugi, vinur og óvirkur alki til nokkurra áratuga. Ég er heiðarlegur, einlægur, ástríðufullur og forvitinn. Ég elska tengsl og að vinna með fólki á margvíslegan máta í gegnum tengsl og virka hlustun, um leið og ég elska líka að uppfræða, leiðbeina og kenna. En mest af öllu elska ég að sjá neista kvikna hjá fólki, birtuna vaxa í augunum og tilgang og ástríðu vaxa. Að sjá fólk stíga út úr gráma inn í litríkt, áhugavert og kraftmikið líf.

Familían nýlega í myndatöku

Ég er viðskiptafræðingur með áherslu á markaðssamskipti og vann í sölu- og markaðsmálum stærstan hluta starfsævinnar, gjarnan með verulega góðum árangri. Ég komst þó að því einn daginn að ástríðan mín lá ekki þar og að ég væri í raun á barmi þess að vera útbrunninn á þeim starfsvettvangi. Ég var þá sölustjóri á stóru dagblaði á Íslandi, þar sem alltaf var allt undir í hverri einustu viku. Okkur tókst að reka blaðið með ágætum afgangi fyrstu árin – árangur sem var í raun einstakur á sama tíma og nánast öll önnur fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi voru rekin með miklum halla eða ríkisaðstoð. En með breytingum á blaðinu sem, juku verulega rekstrarkostnað, fór hins vegar að halla hratt undan fæti og þó að okkur tækist að nánast tvöfalda söluna dugði það skammt og sigur tilfinningin gufaði hratt upp og með henni gleðin af starfinu. Ég var kominn að tímamótum og innra með mér vissi ég að ég yrði að breyta til og finna ástríðuna mína aftur.

Í dag ber ég aðallega tvo hatta að atvinnu.

Ég rek lítið fyrirtæki í ferðaþjónustu og ferðast með litla hópa um landið og fæ þar virkilega góða útrás fyrir þörfina mína til að vera í og tengjast náttúrunni og fæ ég sömuleiðis afar mikið út úr því að tengja gestina mína við náttúruna og að sjá þá upplifa náttúrulega ró og gleði. Það er nefnilega fátt sem að vindur betur og hraðar ofan af streitunni okkar en bara að einfaldlega vera, hreyfa sig og njóta í tengslum við “elementin” okkar. Það er ræturnar þaðan sem við öll komum.

Og hinn hatturinn er Markþjálfun. Væntanlega er það einmitt ástæða þess að þú ert hér. Við erum hér saman líklega vegna sameiginlegs áhuga á að bæta okkur og styrkja, í leit að nýjum leiðum og tækifærum til áframhaldandi vaxtar. Í Markþjálfuninni hef ég verið að einbeita mér mest að því að vinna með Markþegum (gestir í Markþjálfun) í persónulegum vexti – það er að hjálpa Markþegunum með verkfærum Markþjálfunar að taka stöðuna á sér í dag og til framtíðar. Að finna út úr því hver við viljum vera, hvert við viljum fara og hvernig við komumst þangað.
Ég hef áratuga reynslu af því að vinna í sjálfboðastarfi með fíklum í að bæta líf sitt og hefur sú reynsla – ásamt því að vera að vinna nokkuð stöðugt í að bæta mitt eigið líf, persónuleika og hlutverk, frá því að ég kom sjálfur út úr miklu rugli í eigin lífi um tvítugt – gefið mér bæði einlægni og innsæi sem getur hjálpað þér að komast hratt og örugglega í gegnum hismið og að þínum kjarna – en það er auðvitað þar sem aðal galdrarnir gerast.

Ef þú hefur áhuga á að nýta þér Markþjálfun og mína aðstoð við að skoða og nýta alla þá möguleika sem líf þitt býður upp á, er um að gera að hafa samband og finna út úr því hvort að við eigum saman. Mitt markmið er einfalt – hvert samtal í Markþjálfun á að hjálpa þér að upplýsingum um þig sem munu breyta lífi þínu til frambúðar.

Takk fyrir að kíkja hér inn – ég er þakklátur fyrir áhugann!